Easy Oriole


Fyrir u.þ.b. 2 vikum síðan átti ég leið til Þrastar til að kaupa smádót og spjalla aðeins.
Þá rak ég augun í kassa með svifflugu, forvitninn náði yfirhöndinni þannig að
ég laumaðist til að líta ofan í hann. Þar sá ég 1 stykki ARF svifflugu með mótor og öllu saman.
Ég spurði Þröst hvort að hún væri til sölu, og jú hún var til sölu (skrýtið ekki satt).
En því miður þá var Þröstur búinn að selja hana.
Ég spurði hann hvort að hann ætti von á fleiri svona vélum og hann sagðist vera á
leiðinni að panta því að þó nokkrir hefðu sýnt vélinni áhuga.
Ég bað hann strax um að taka eina frá fyrir mig því að mig langaði að kaupa hana og ekki skemmdi
verðið fyrir, aðeins 12.900 kr, og telst ekki mikið.

Svo leið og beið, inn á milli kom skemmtilegt föstudagskvöld með Balsabandinu og Eiríki Fjalar.
Í gær hringdi ég í Þröst og viti menn vélin var komin.
Ég skaust í bæinn rétt fyrir lokun hjá Þresti og náði í gripinn.

Þegar ég kom úr vinnunni í dag skellti ég mér í það að setja gripinn saman,
eða réttara sagt raða fjarstýribúnaðinum í vélina. Þegar að því lauk þá hringdi ég í vin minn í
Flugmódelfélaginu og bað hann að hitta mig úti á velli rétt fyrir kl.6 í dag.



Fyrst á dagskrá var að athuga svifið á gripnum. Og viti menn hún sveif tæpa 15m úr 2m kasthæð.
Því næst var hafinn undirbúningur fyrir fyrsta flug með mótor sem fólst í því að aðstoðarmaðurinn skutlaði
vélinni beint áfram með mótorinn í gangi. Vélin þurfti varla gjöf til að klifra og steig áreynslulaust upp til himna.

Vélin er mjög þæg á flugi og gerir allt sem
maður vill að hún geri. Hún svarar líka vel og getur flogið hratt fyrir þá sem það vilja.
Þessi vél á eftir að fljúga mikið í sumar.

Smá tæknilegar staðreyndir:

          Vænghaf: 160cm
          Lengd: 100 cm
          Mótor: Speed 550
          Þyngd: 1100 grömm
          Aflgjafi: 7 sellu, 1900 mah rafhlaða
          Svifstig: Skuggalega mikið (Glide-ratio)

Kveðja
           Sverrir Gunnlaugsson