XFIRE

Crossfire frá Pete's Planes

Jólagjöfin í ár, frá mér til mín, reyndist vera Xfire frá Pete's Planes sem er lítið smíðakit gert fyrir rafmagnsmótora.
Lenti í því að fara í bílskúrsheimsókn fyrr í vetur þar sem var verið að smíða rafmagnsmódel og vakti það bakteríuna upp í mér eftir langan dvala og mátti varla seinna vera segja sumir. Eftir að smá umræður og lán á teikningum þá var kom þessi vél upp í umræðuna og í framhaldi af því var farið af stað með smá rannsóknarvinnu á Netinu. Þar leit allt sæmilega út og var svo farið í það að panta gripinn með tölvupósti og símtali út til Pete sem er mjög almennilegur og fínt að spjalla við hann.

Innihald kassans
Innihald kassans

Vélin fer svo í póst þann 10.desember og Íslandspóstur gerir tilraun til að koma henni til mín 20.desember en þar sem ég var ekki heima þurfti ég að fara niður á pósthús daginn eftir, þá kom í ljós að engin pakki var þar, fannst vélin svo ekki fyrr en seint á Þorláksmessu eftir margar hringingar í þjónustuverið og ferðir niður á pósthús.

Ekki er kassinn stór sem kitið kemur í 96 cm á lengd, 12 cm á breidd og 9 cm á hæð. Teikningapappírinn er frekar stífur þannig að það borgar sig að rúlla honum á móti því sem hann kemur og ætti hann þá að verða sléttur og fínn. Leiðbeiningarnar eru tvö A4 blöð prentuð á báðum hliðum og eru þær nokkuð ítarlegar.

Hlutir sem smiðurinn þarf að skera út
Sniðmátin

Rétt er að taka fram að það margborgar sig að lesa yfir leiðbeiningarnar áður en byrjað er á smíðinni og tvítékka áður en balsinn er skorinn niður. Í mínu tilfelli hefði ég þurft að þrítékka því í vængstyrkingunni á skrokknum þá skar ég bútana of stutta.

Vitleysan!

Rifin eru nánast eini parturinn af módelinu sem kemur þrykktur (e. die-cut) en afgangurinn er fengin með því að skera út búta eftir sniðmátum sem eru límd á balsaplötur.


Ákveðið var að nota Zap sýrulím við smíðina til að halda vélinni sem léttastri en eins og allir vita þá er þyngdin óvinur okkar hvort sem hún er á okkur eða flugmódelunum. Stefnan er sett á að vera í kringum kílógrammið með vélina en það ætti að gefa skemmtilega flugeiginleika með 600 rafmagnsmótor.

Vængstyrkingin lagfærð

Smíðin hefst á skrokknum og er það frekar einföld vinna þar sem þetta er kassi með skrokkrifjum og fær hann ekki á sig ávölu línurnar fyrr en í seinni hluta verksins þegar balsarúningin hefst. En eins og áður segir þá ber helst að varast það að skera hlutina ekki of stutta(eða langa) og þá er sjálf samsetningin frekar fljótleg. Tímafrekasti hlutinn var án efa útskurðurinn á þeim stykkjum sem þurfti að hafa á þessu stigi smíðinnar.

Rafhlöðuboxið

Þegar búið var að líma rifin í kringum vængfestinguna þá þakið á rafhlöðuboxinu límt á sinn stað og því næst var stélhluti skrokksins límdur saman. Því næst voru rifin á milli endabrúnar vængfestingar og stéls límd í og að því búnu var framendin skrokksins tekin saman og límdur.

Mynd komin á smíðina

Því næst var hafist handa við að ganga frá stýrileiðslum aftur að stélfletinum og er það frekar hefðbundin frágangur með tveimur börkum sem krossast áður en þeir ganga út úr skrokknum.

Ekki fylgir með barki til að þræða loftnet móttakarans í gegnum en það er oft hentugt að nota drykkjarrör í þennan hluta smíðinnar þar sem þau eru frekar létt og nógu víð. Passið bara að stinga þeim þannig saman að fremra rörið gangi inn í það aftara til að koma í veg fyrir að erfitt sé að þræða loftnetið í gegn.

Framendin séð ofan frá
Horft inn skrokkinn að framan
Stélendin með börkunum

Allt í allt þá fóru 3.5 tími í að koma vélinni á þetta stig og bendir allt til þess að nokkuð ánægjuleg vinna sé framundan í smíðinni og vélin ætti ekki að vera erfið í samsetningu. Von er á meiri skrifum hér á næstum dögum eða eftir því sem verkið vinnst þannig að lítið við af og til og fylgist með framvindu mála.

29.desember 2004 » 3.5 tími
Partur » 1 2 3 4 5