Af sjónarhóli byrjanda í módelflugi, 1. hluti.

Ég hef alltaf haft ákveðinn veikleika gagnvart dellum.
Fyrir rúmum tuttugu árum var ég á kafi í mótorhjólum og þeysti um malarvegi landsins meira af kappi en forsjá.
Það hafði í för með sér að við fákur minn skoðuðum öðru hvoru fullnáið vegarskurði og lággróður á hásléttu landsins með þeim afleiðingum að móðir mín elskuleg svaf frekar lítið fyrir áhyggjum á þessum árum.
Eftir að vera orðinn sjálflýsandi vegna síendurtekinna röntgenmyndatakna var kominn tími til að leggja mótorhjólinu enda nóg komið af svo góðu.
Við tók langur tími við skotveiðar, byssusöfnum og keppnisskotfimi sem ekki sér fyrir endann á.
Auk þessa fylgist ég með ótal öðrum aðferðum til að eyða tíma og peningum í.

Meðfram öllu þessu blundaði áhugi á flugvélum, sérstaklega þeim eldri, án þess þó að hafa sérstakan áhuga á að læra að fljúga. Ég komst fljótlega að því að flugmódel virtust vænlegur kostur til að spekúlera í flugvélum, hvort heldur sem var fornum eða nýjum.

Fyrsta líkamlega reynslan af fjarstýrðum flugmódelum var á námsárunum í Reykjavík þegar ég sá hóp manna saman kominn á Geirsnefinu með flugmódel sín. Meðal annars man ég þar eftir flugvél nefndri "Halli hörmulegi", gráleitri að lit og heldur ótútlegri. Einnig var reynt að draga á loft svifflugu sem endaði ofan í frosnum sverðinum og þar með aftur orðin ósamsett. Axel Sölvason var þar áberandi persóna á brúna rúgbrauðinu sínu.

Næstu kynni af flugmódelflugi voru á Tungudal við Ísafjarðardjúp. Á allstóru túni voru nokkrir menn með flugmódel ásamt vönum manni með Ray Ban sólgleraugu sem skyldi kenna þeim tökin. Það fór ekki betur en svo að flugkennarinn flaug beint í girðingu í túnfætinum og skutlaðist módelið við það ofan í nærstaddan skurð. Raunar skemmdist það ekki mikið við þetta ævintýri en vel mátti merkja hvar möskvar vírnetsins höfðu komist í snertingu við vængina.
Kannast kannski einhver við ofangreind atvik?

Vart þarf að taka fram að það vakti athygli mína hversu erfiðlega virtist ganga að koma vélum þessum í gang. Virtist mér helmingur af áhugamálinu fara í að bogra yfir módelunum með rassinn upp í vindinn. Minntu aðfarirnar einna helst á árlegan berjamó kvenfélagsins heima í Mývatnssveit.
Af öllu framantöldu má vera ljóst að mér fannst varla taka því að byrja á þessu brölti enda lét ég það eiga sig um langt árabil, keypti í mesta lagi eitt til tvö blöð á ári til þess að fræðast og svala forvitninni.

Einn góðan veðurdag hringdi svo vinur minn í mig og tjáði mér að hann væri kominn með nýtt áhugamál og bað mig að koma og segja kost og löst á því. Í ljós kom að það voru fjarstýrð flugmódel og lifnaði þá heldur yfir mér. Þá fór ég að síga af stað, kynntist góðum félögum hér á Akureyri og komst í loftið.
Það tók þó langan tíma vegna hins margrómaða, íslenska veðurs ásamt fleiri utanaðkomandi þátta.

Nú er ég hins vegar orðinn all sjálfstæður, kominn með powerpanel og startara og finnst mér því vera orðinn maður með mönnum ásamt því að flugbrautin á Melgerðismelum er farin að hitta æ oftar á trainerinn minn. Seinna ætla ég hugsanlega að miðla af reynslu minni sem byrjanda að standa frammi fyrir þeim frumskógi sem byrjendaflugmódel eru og vona að einhverjir hafi hugsanlega eitthvert gagn og jafnvel gaman af þessum hugrenningum mínum.

Það gefst jú nægur tími til að sitja við skriftir í dimmasta skammdeginu þar sem módelið mitt er stráheilt eftir sumarið!

Kveðja
           Árni H. Helgason