Fail-Safe


Mér datt í hug að benda ykkur á eitt atriði í sambandi við Fail-Safe sem er
í dýrari fjarstýringum.

Ef fjarstýringin er með PCM (Puls Coded Modulation) móttakara, þá er hún með
möguleika á Fail-Safe.
Ef fjarstýringin er með PPM (Pulse Position Modulation, oft bara kallað FM)
móttakara, þá er ekki möguleiki á Fail-Safe.

Ef Fail-Safe er rétt notað, þá er það tvímælalaust til bóta, en getur verið
hættulegt ef það er ekki rétt stillt. Því miður er Fail-Safe yfirleitt
vitlaust stillt þegar fjarstýringin kemur frá verksmiðjunni. Við þessu hefur
verið varað á erlendum spjállrásum.

Eftirfarandi lýsing á við Futaba fjarstýringar.
Þetta er hliðstætt í JR fjarstýringum.

Hægt er að velja um fyrir hverja rás Normal (hold) eða F/S (Fail-Safe).

Í Normal stillingu festist viðkomandi stýriflötur í þeirri stillingu sem
hann var í meðan truflunin stendur yfir. Sömuleiðis bensíngjöfin. Um leið og
óbrenglað merki berst losna stýrin.

Í F/S stillingu fara stýrifletir og bensíngjöf í fyrirfram ákveðna stöðu
meðan truflun stendur yfir.

SLÆMT:
Fjarstýringarnar koma yfirleitt frá verksmiðjunni með allar rásir stilltar á
Normal (eða hold). Þetta er hættulegt:
Ef truflun á sér stað í flugtaki (eða loftnetsstöng óvart niðri) brunar
módelið á fullri gjöf stjórnlaust þar til það lendir á fyrirstöðu, sem
hæglega geta verið aðrir módelflugmenn eða áhorfendur.
Ef módelið er í beygju með hallastýrin á þegar truflunin kemur, heldur það
áfram að auka hallann meðan stýrifletir eru enn í "beygju".
BETRA:
Ef við forritum stöðina þannig að allir stýrifletir fari í F/S í stað Normal
(hold), þá er þessi hætta ekki fyrir hendi. Við látum bensíngjöfina fara í
hægagang þegar truflun kemur og alla stýrifleti í stöðu fyrir beint flug.
Hallastýrin í miðju og hæðarstýrið hugsanlega örlítið upp. Með þessu móti
heldur módelið þeirri stefnu sem það var í meðan á truflun stendur og mótor
fer í hægagang. Fari módelið í jörðina, þá er mótorinn allavega ekki á
fullu! Við verðum varir við truflunina sem "gangtruflun", en ekki sem snögga
veltu eins og við þekkjum vel. Módelið ætti að fljúga að mestu ótruflað í
gegn um truflunina, ef hún stendur stutt yfir.

Háþekju getum við forritað þannig, að módelið svífi hægt í stórum sveig til
jarðar ef langvinn truflun á sér stað, eða bilun.

Auðvelt er að prófa verkun Fail-Safe á jörðu niðri með því að hafa
sendiloftnetið niðri og ganga frá módelinu þar til samband rofnar. Það má
líka prófa að slökkva á fjarstýrisendinum meðan módelið er hátt uppi og
fylgjast með hvað gerist!

---

Góðar PCM fjarstýringar eru oft með spennuvöktun á rafhlöðum, þannig að
mótorinn lætur vita um yfirvofandi hættu með því að fara í hægagang. Með því
að hreyfa stýripinnann getum við aukið afl mótorsins í 30 sekúndur meðan við
reynum lendingu áður en rafhlaðan tæmist alveg. Svona "battery fail safe"
virkar aðeins með 4,8V (4 sellu) rafhlöðu.

---

Meira um Fail-Safe er á vefsíðunni
http://www.rt.is/ahb/rc/ymislegt/fjarstyringar.pdf

---

Því má svo að lokum bæta við, að hægt er að fá litla Fail-Safe einingu sem
sett er milli venjulegs PPM móttakara og stýrivélar. Þessi eining setur
mótor í hægagang þegar truflun á sér stað. Einingin virkar bara með
"venjulegum" PPM móttökurum.

Sem sagt, stillið fjarstýringuna strax á F/S (Fail-Safe) í stað Normal
(hold). Að minnsta kosti fyrir bensíngjöfina. Annað er beinlínis hættulegt.

Kveðjur

Ágúst