Nokkrir hlutir sem vert er að athuga.


Rafhlöðurnar: Nú er rétti tíminn til að huga að módelunum, fara yfir tækin, prófa og lagfæra. Oft hafa módel krassað vegna þess að rafhlaðan svíkur. Nú væri upplagt að hressa upp á þær, en þær hafa mjög gott af hleðslu og afhleðslu annað slagið. Hlaðið rafhlöðurnar í 15 tíma með venjulegu hleðslutæki, afhlaðið þær síðan alveg og hlaðið aftur í 15 tíma. Afhlaða síðan einu sinni enn og hlaðið, og ættu þær þá að vera orðna tilbúnar fyrir sumarið. Nauðsynlegt er að afhlaða rafhlöðurnar alveg, a.m.k. í 1,1 volt per sellu. Hægt er að nota til þess gerð tæki, en lang einfaldast er að nota litla vasaljósaperu og afhlaða þar til ljósið slökknar. Svona afhleðslu/hleðslu (battery cycling) er gott að framkvæma t.d. tvisvar á sumri. --- Nú væri einnig rétt að huga að rafkerfi módelsins. Það er alltaf grátlegt að horfa á menn krassa vegna þess að rafhlaðan er tóm. - Er rafhlaðan nógu stór? - Mælir þú spennuna fyrir hvert flug, annað hvort með innbyggðum ljósdíóðuvoltmæli, eða mæli (með 10 ohm álagi) sem hægt er að stinga í samband við hleðslutengið? Gættu þess að fljúga ekki ef spennan er lægri en 4,8 volt (1,2 volt per sellu í 4-sellu pakka. Gættu þess líka að treysta ekki blint á nákvæmni spennumælisins. Hann gæti verið vitlaust kvarðaður og þá er voðinn vís. - Mundu eftir að stór módel eyða meiri straum en lítil. Er það vegna þess að meira álag er á stýrifletina, og oft eru fleiri servó í vélinni. - Notar þú tvo rafhlöðupakka? Það er sjálfsagður hlutur, ef plássið leyfir. Einfaldast er að nota tvo jafnstóra rafhlöðupakka (4 eða 5 sellur), og tvær rofasnúrur með tveim hleðslutengjum. Aukarafhlaðan er þá tengd við ónotaðan servótengil í viðtækinu, eða ásamt einhverju servó með hjálp Y-snúru. Fyrir hvert flug er fyrst kveikt á öðrum rofanum aðeins og síðan á hinum aðeins meðan spennan er mæld og stýrifletir eru hreyfðir, og svo auðvitð á báðum fyrir flug. Með svona tengingu vinnst ýmislegt: Rýmdin tvöfaldast og einföld bilun í rafhlöðupakka eða rofa kemur ekki að sök. --- Á R/C horninu http://www.rt.is/ahb/rc/ er grein um hleðslurafhlöður (lína 4 í bendingunum). Kristján Antonsson dreifði líka ágætri grein um sama efni á fundi í fyrra. Lendum ekki í því að krassa í sumar vegna lélegs rafkerfis!           Ágúst H. Bjarnason