Klæðning
Skrokkurinn var klæddur á skjaldbökudekkið ( e. turtledeck ) með 3mm balsa á hliðunum og 6mm balsa ofan á. Þá var gróðurhúsinu hent saman en það samanstendur af 2x hliðum, 2x rifjum og toppklæðningu og er límt saman ofan á skrokknum.
Botnin á skrokkinum er svo klæddur með 3mm balsaplötu. Pússa/skera þarf fláa í klæðninguna sem er á ofanverðum skrokkinum til að fá hana til að falla þétt saman.
Rúning
Nei ekki alveg eins og í sveitinni en nálægt því þó, það er ansi mikið af við sem þarf að skera/hefla/pússa af skrokknum til að ná fram þeirri straumlínulögun sem er sýnd á teikningunum. Ekki láta ykkur bregða en þetta sem sést á tveimur neðstu myndunum er bara smá hluti af þeim balsa sem var fjarlægður af vélinni.
Ábendingar
Smá tími fer í það að skera út bútana sem koma sem límmiðar á balsanum og það myndi borga sig að hefja smíðavinnuna á því að skera út alla viðarbútana fyrir þann hluta sem verið er að vinna með, til að vinna sér í haginn fyrir samsetninguna á honum. Ég gerði það ekki við samsetninguna á skrokknum og þótt það hefði ekki komið að sök þá hefði það að vissu leyti hjálpað mér að fá betri yfirsýn yfir það sem ég var að gera og hefði kannski flýtt fyrir mér á sumum stöðum.
Næst á dagskrá
Fínpússa skrokkinn og sparsla þar sem þess þarf með Red Devil ONETIME® Lightweight Spackling en það er létt og gott sparsl sem þægilegt er að vinna.
Hefja smíði á stélhlutanum og að því loknu verður tekið við að smíða vænginn. |